Um Minningarsjóð Ölla

Markmið

Minningarsjóður Ölla hóf starfsemi haustið 2013 og hefur það að markmiði að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

Forsvarsmenn og stjórn:

Stofnandi sjóðsins er Særún Lúðvíksdóttir, móðir Ölla. Framkvæmdastjóri sjóðsins er María Rut Reynisdóttir, frænka Ölla.

Stjórn sjóðsins skipa þau Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður, Margrét Sanders, framkvæmdastjóri Deloitte og Halla Heimisdóttir, íþrótta- og lýðheilsufræðingur. Verndari sjóðsins er Þorgrímur Þráinsson.

Styrkir úr sjóðnum:

Minningarsjóðurinn hefur hingað til bæði styrkt börn beint til íþróttaiðkunar sem og veitt veglega styrki til Hjálparstarfs kirkjunnar, Velferðarsjóðs Suðurnesja og Fjölskylduhjálpar Íslands sem hafa séð um að útdeila styrkjum eftir markmiðum sjóðsins. Hægt er að sækja um styrk hér.

Styrkja starfsemi sjóðsins:

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning sjóðsins 0322-26-021585, kt. 461113-1090.

Allur sá peningur sem safnast fer í að styrkja börn til íþróttaiðkunar. Forsvarsmenn sjóðsins gefa sína vinnu sem og allir þeir sem að starfseminni koma.

Minningarsjóðurinn hefur hingað til bæði styrkt börn beint til íþróttaiðkunar sem og veitt veglega styrki til Hjálparstarfs kirkjunnar, Velferðarsjóðs Suðurnesja og Fjölskylduhjálpar Íslands sem hafa séð um að útdeila styrkjum eftir markmiðum sjóðsins.

Um Ölla

Örlygur Aron Sturluson var ekki lengi að stimpla sig inn sem mesta efni í sögu íslensks körfubolta eftir að hann hóf feril sinn með meistaraflokki Njarðvíkur árið 1997 þá einungis 16 ára gamall. Hann varð undir eins lykilmaður í liðinu sem varð Íslandsmeistari árið 1998.

Eftir frábært tímabil hélt Örlygur út til North Carolina í Bandaríkjunum til þess að stunda nám og spila körfubolta með Charlotte Christian Knights undir stjórn Hall of Fame NBA leikmannsins Bobby Jones sem varð meistari með Philadelpia 76'ers árið 1983. Bobby var einnig fyrsti leikmaðurinn í sögunni til þess að fá nafnbótina sjötti maður ársins en hann afrekaði að spila fjóra All Star leiki og var valinn í varnarlið deildarinnar tíu ár í röð.

Eftir árangursríka dvöl í Bandaríkjunum snéri Örlygur heim og hóf aftur að leika með Njarðvík þá orðinn 18 ára gamall. Örlygur spilaði þrjá A-landsleiki og nokkra unglingalandsleiki fyrir tímabilið. Hann var orðinn einn af albestu leikmönnum deildarinnar tímabilið 1999-2000 þegar hann lést af slysförum 16. janúar árið 2000, daginn eftir að hann spilaði Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands.