Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning sjóðsins 0322-26-021585, kt. 461113-1090. Allur sá peningur sem safnast fer í að styrkja börn til íþróttaiðkunar. Forsvarsmenn sjóðsins gefa sína vinnu sem og allir þeir sem að starfseminni koma.
Minningarsjóðurinn hefur hingað til bæði styrkt börn beint til íþróttaiðkunar sem og veitt veglega styrki til Hjálparstarfs kirkjunnar, Velferðarsjóðs Suðurnesja og Fjölskylduhjálpar Íslands sem hafa séð um að útdeila styrkjum eftir markmiðum sjóðsins.
Á hverju ári tekur Minningarsjóður Ölla þátt í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka en þá geta þeir sem taka þátt í hlaupinu safnað áheitum og látið þau renna í sjóðinn. Áheitasöfnunin er ein mikilvægasta fjáröflun sjóðsins á ári hverju og eru þeir sem eru áhugasamir um starfsemi sjóðsins og markmið hans hvattir til að leggja okkur lið með því að taka þátt í hlaupinu og skrá sig í áheitasöfnunina á hlaupastyrkur.is
Þín þátttaka skiptir okkur gríðarlega miklu máli.
Á Facebook er stór hlaupahópur undir heitinu Hlaupahópur Minningarsjóðs Ölla (áskorun) og hvetjum við fólk einnig til að ganga til liðs við hann því þar er oft mikið líf og fjör í aðdraganda maraþonsins.
Sjóðurinn gerir mikið úr deginum þegar maraþonið fer fram. Aðstaða er fyrir hlaupara í safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Reykjavík og þar eru hlauparar og fjölskyldur þeirra og allir áhugasamir hvattir til að kíkja við eftir hlaup í hressingu og myndatöku. Þar hefur alltaf myndast mjög góð stemning og hefur þetta með árunum orðið eitthvað sem fólk sem hefur áður tekið þátt vill alls ekki missa af.